top of page

Týnd lög eftir Ágúst Pétursson

Writer's picture: Ágústa Sigrún ÁgústsdóttirÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Updated: Nov 11, 2024

Í veikri von um að ná að púsla saman einhverju af þessu þá birti ég hér með þennan pistil.


Elfa ástarinnar

er lag sem pabbi sendi inn í danslagakeppni SKT 1955 og fékk það viðurkenningu. Við eigum hvorki lagið né textann. Mér skilst að öllum gögnum SKT hafi verið hent þegar Freymóður lést og húsið hans var tæmt.


UPPFÆRT 21.11.2023

Lagið er fundið, en það heitir í dag Á bernskuslóð og er við texta eftir Loft Jónsson. Jónatan Garðarsson fann það á gömlu segulbandi sem tekið var upp í keppninni 1955.


Lag og texti var sent í danslagakeppni SKT 1955 í nýju dönsunum undir nafninu Elfa ástarínnar og leyninafn höfundar var Elfar. Lagið fékk 100 kr. viðurkenningu eins og lesa má á þessar úrklippu.


HÉR er lagið Elfa ástarinnar sem seinna varð Á bernskuslóð eins og það var fyrst flutt á danslagakeppni SKT 1955



 
Bréf sem við fengum frá Kristjáni frá Djúpalæk þegar við vorum að byrja að undirbúa útgáfu af nótnasafni með lögum pabba. Verkefnið vatt svo upp á sig og út kom bæði diskurinn Hittumst heil árið 2001 og nótnahefti.

 

Á hafinu

Textinn er til en ekki lagið. Marinó Pétursson var að reyna að rifja lagið upp sumarið 1991 og var í sambandi við Kristján. Hann á víst að hafa skrifað eitthvað niður, en það hefur orðið eftir í hans gögnum þegar hann féll frá. Kristján telur að það hafi farið til einhverrar frænku hans.

lag: Ágúst Pétursson

texti: Kristján frá Djúpalæk


Fagurt er hafið. Sólin sígur.

Síðustu geislar verma kinn.

Aldan við ströndu hæglát hnígur.

Heillaður vakir andi minn.

Fuglarnir klökkna í söngvum sínum.

Sveipast jörðin í rökkurhjúp.

Vaggaðu, bára, bátnum mínum.

Berðu hann með þér um Ægis djúp.

Flýtur fjallamyndin,

foss og tæra lindin

speglinum þínum, alda, í.

Úti á Finnafirði

er fegurðin miklis virði

síðdegis, þegar sólin roðar ský.


Náttdaggir falla. Stella stígur

stillt á lognöldunni vals,

sem ungmeyjar brjóst er hefst og hnígur.

Heillandi er máttur Ægis sals.

Blundar nú sveit í svefnguðs armi.

Síðustu radda hljómur dvín.

Hlýtur sá frið, sem böl í barmi

ber, meðan sól og dagur skín.

Allt er ástúð vafið.

Undrablátt er hafið.

Djúps á bylgjum fegurstar stundir fást.

Á hafinu á ég heima.

Hér vil ég reyna að gleyma

öllu því, sem unni ég, - en brást


Friðarins ríkir mikli máttur.

Mókandi hnígur djúpið blátt

Leikur nú Ægis andardráttur

undir við Stellu hjartaslátt.

Belt sig þoka í bjargasyllum.

Bláslikjuð móða vefst um láð.

Sæfuglar doka í hamrahillum.

Himins um geim er rósum stráð.

Minningar myrkar vaka.

Mynd á sig aftur taka.

Lágnættisskuggunum sameinast sála mín.

Að nýju mér sárin svíða.

Sorgir á hjartað stríða.

Svæfðu þær, alda, við svanabrjóstin þín.


Blessið minn afla, Íslands vættir.

Ást mín er tengd við sæ og vor.

Í störfum finn ég frið og sættir,

við forna daga og gengin spor.

Líður að nótt hjá nyrstu baugum.

Napurt er kul sem standi af ís.

Fögur sem dís frá djúpsins laugum

drottning hin mikla norðurs rís.

Keipa ég höndum köldum.

Kvikna gárur á öldum.

Þorskinn ég byrði sprækan með sporðaköst.

Minn bátur er bráðum hlaðinn.

Ég beiti er kvöldar vaðinn

og stýri á djúpið. Ég stefni á Langanesröst.


úr ljóðabókinni Frá nyrztu ströndum 1943

 

B.S.O. valsinn

Búið er að leggja mikið á sig við að finna lagið á meðal eldri bílstjóra hjá Bifreiðastöð Odderyar, en það hefur ekki fundist. Friðjón Hallgrímsson setti sig í samband við marga fyrir norðan án árangurs. Það var þó maður sem ákveð að semja bara nýtt lag við textann og við erum að bíða eftir að fá það í hendurnar.

lag: Ágúst Pétursson

texti: Kristján frá Djúpalæk


Að aka gegnum Eyjafjörð

er óskadraumur slíkur,

að hver, sem staðinn sér í svip,

er síðan nýr og ríkur,

og elskar þenna huldu-heim,

sem hjúpar mistrið bláa.

Og mitt í þeirri blómstur-byggð

er borgin grænna trjáa.


Hér kalla glæst og gömul nöfn

frá Grund til Möðruvalla.

Og þor og dyggðir Þveræings

hér þróast milli fjalla.

Ei Vitaðsgjafi búi bregst,

ef beitt er viljans plógi.

Og ljóðin heilla huga vorn,

frá Hrauni og Fagraskógi.


Og keyrum austur Vaðlaveg,

þar Vaglaskógur fríður

þér, ferðamaður, frið og skjól

í faðmi sínum býður.

Já, landið kallar okkur öll

í austur, suður, vestur.

Sá endurheimtir æskuvor,

sem er þess stundargestur.


úr ljóðabókinni

Það gefur á bátinn, MCMLVII


 

Felldar fjaðrir

Uppkast að ljóði fyrir Á.P. sem fannst í gögnum hans. Kristján virðist ekki kannast við textann og ólíklegt að við finnum lagið.

Lag: Ágúst Pétursson

Texti: Kristján frá Djúpalæk


Barnið mitt, brosið þitt

það er svo bjart og hlýtt og glatt.

Geisli skær, í húmsins heimi

þeim sem hefur daginn kvatt.

Úti er senn æfistarf

að vera öðrum hlíf og skjól.

Tímans fugl flýgur hratt

fram um veg.

(Þerrum tár.

Þú og ég.)


Aldrei gleymist æsku vor,

því ellin rekur lengi gróin spor.

Hver minning verður henni kertaljós er kveldar.

Gott er inn í grænan lund

að ganga, þegar taka að frjósa sund,

og að hvílast þar með fjaðrir sínar felldar


Barnið mitt, brosið þitt

í mínu brjósti hrærir streng.

Fjarri glaumi forðum leiddi

ég þinn föður, lítinn dreng.

Tárin þín minna mig

á hvað mamma honum var.

Fróar að flýja til

fölnaðs elds,

(undir lok

æfikvelds.)



 

Friðjón Hallgrímsson rakst á þessa auglýsingu í Morgunblaðinu frá 13. október 1957


Dansleikur í G. T.-húsinu í kvöld klukkan 9

Fjórir jafnfljótir leika.

Nýir dægurlagasöngvarar reyna hæfni sína. Kynnt verða tvö ný lög: Geislar kvöldsins og B. S. O.-valsinn, eftir hinn vinsæla danslagahöfund Ágúst Pétursson og verður hann sjálfur viðstaddur. Söngvari: Skafti Ólafsson.

Aðgm. frá kl. 8, sími 1-33-55


Það varpar fram einni spurningu til viðbótar. Hvaða lag er Geislar kvöldsins?


Related Posts

See All

1 Comment


Guest
Nov 13, 2023

Er það eftir Jóhann Eymundsson sem var með þeim í Hljómatríóin. Frá glatkistunni:

Hljómatríóið (1945-62)

Hljómatríóið var tríó harmonikkuleikaranna Jenna Jóns, Ágústs Péturssonar og Jóhanns Eymundssonar, í sveitinni spilaði Jenni reyndar á trommur. Tríóið var stofnað 1945 og lék á alls kyns samkomum allt til ársins 1962, og urðu reyndar svo frægir að leika undir á plötu með Alfreð Clausen 1954. Aldrei sendi Hljómatríóið þó sjálft frá sér efni þrátt…

Jóhann Eymundsson fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 3. september 1927.

Bestu kveðjur.

Like
bottom of page